Blásið til sóknar í afreksíþróttum – Vésteinn flytur heim

Vésteinn Hafsteinsson, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ við undirritun í Gautaborg.

Mennta- og barnamálaráðuneytið og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands skrifuðu í dag undir samstarfssamning um stefnumörkun og uppbyggingu afreksíþróttastarfs á Íslandi. Samkomulagið felur m.a. í sér að Vésteinn Hafsteinsson muni flytja til Íslands og starfa með íslenskum stjórnvöldum að mótun aðgerða til að bæta stöðu og réttindi afreksíþróttafólks.

Samhliða þessu hefur Ásmundur Einar Daðason skipað sérstakan starfshóp allra hlutaðeigandi aðila til að halda utan um þessa vinnu og mun Vésteinn veita þeim hópi forystu. Tilkynnt var um þetta á blaðamannafundi í Gautaborg í Svíþjóð fyrir stundu. Markmiðið er að umgjörð afreksíþróttastarfs verði eins og best verður á kosið þannig að afreksíþróttafólk okkar standi jafnfætis keppinautum sínum á alþjóðavísu.

Selfyssingur í fremstu röð
Selfyssingurinn Vésteinn þekkir vel til þarfa afreksíþróttafólks, bæði sem þjálfari og fyrrverandi kringlukastari í fremstu röð. Vésteinn var valinn þjálfari ársins í Svíþjóð eftir að lærisveinar hans Daniel Ståhl og Simon Pettersson unnu gull og silfur á Ólympíuleikunum í Tókýó árið 2021. Hann hefur komið að fjölbreyttu íþróttastarfi í gegnum tíðina, bæði hérlendis og erlendis, og þekkir umhverfið og fólkið vel. Vésteinn er ráðinn til næstu fimm ára til að leiða umbótastarfið og móta breytingar með stjórnvöldum og í framhaldinu fylgja eftir innleiðingu þeirra í samvinnu við ráðuneytið og ÍSÍ. Samhliða mun Vésteinn starfa sem afreksstjóri ÍSÍ og m.a. hafa umsjón með Afreksstefnu ÍSÍ og undirbúningi íslenskra keppenda fyrir Ólympíuleika.

„Þetta þarf að laga“
„Það er mjög ánægjulegt að fá Véstein í þetta mikilvæga verkefni. Afreksíþróttafólk er fyrirmynd annarra. Það kveikir áhuga og metnað í okkur og sýnir að við getum náð framúrskarandi árangri, þótt fámenn séum. Þannig eflir það allt íþróttastarf, auk þess að veita afþreyingu og samstöðu. Afreksíþróttafólkið okkar býr hins vegar ekki við sama stuðning og aðstöðu og erlendir keppinautar sínir og aflar ekki sömu lýðréttinda og við hin. Þetta þarf að laga. Með nýjum þjóðarleikvöngum bætum við aðstöðuna. Nú hefst endurskoðun á allri umgjörð afreksíþróttastarfs eins og kveðið er á um í stjórnarsáttmála,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Markmið vinnunnar framundan er að yfirfara og leggja til breytingar á umgjörð, löggjöf og öðru sem þurfa þykir til að stuðningur við afreksíþróttafólk hér á landi verði í fremstu röð. Starfshópnum er falið að skoða sérstaklega kostnaðarþátttöku keppenda og fjölskyldna þeirra í landsliðsstarfi sem og lýðréttindi afreksíþróttafólks innan ólíkra stuðningskerfa ríkisins.

Starfshópurinn sem Vésteinn mun veita forystu er skipaður fulltrúum mennta- og barnamálaráðuneytisins, félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins og heilbrigðisráðuneytisins auk fulltrúa íþróttahreyfingarinnar og annarra haghafa. Stefnt er að því að hann ljúki störfum og skili ráðherra tillögum að breytingum fyrir 1. september nk.

Fyrri greinGul viðvörun: Stormur og kóf
Næsta greinStóra-Laxá ryður sig