Blandað lið Selfoss í 2. sæti á Íslandsmótinu

Íslandsmótið í hópfimleikum fór fram í Ásgarði í Garðabæ í kvöld. Fimleikadeild Umf. Selfoss átti þrjú lið sem kepptu á mótinu, tvö í kvennaflokki og eitt í flokki blandaðra liða. Blandaða liðið komst á verðlaunapall og fékk silfur.

Kvennalið Selfoss A hafnaði í 5. sæti og Selfoss B í 6. sæti. Aðeins munaði 0,1 stigi á 4. og 5. sæti en heil 6,0 stig skildu að sæti 3. og 4. sætið svo efstu liðin voru með nokkra yfirburði í þessum flokki. Það var lið Gerplu A í kvennaflokki sem hampaði Íslandsmeistaratitlinum með Rangæinginn Rakel Nathalie Kristinsdóttur í broddi fylkingar.

Í flokki blandaðra liða var keppnin mjög jöfn og spennandi eins og við var að búast en 1. flokks lið Gerplu og Selfoss kepptu við meistaraflokkslið Gerplu, Stjörnunnar og Ármanns. Bronslið Selfoss frá NM sýndu góða takta í kvöld en varð aðeins á í messunni á dýnu. Selfoss fékk hæstu einkunn liða á gólfi og trampólíni í dag og endaði samanlagt í 2. sæti 0,25 stigum á eftir liði Gerplu B sem hampaði Íslandsmeistaratitilinum í fjölþraut.

Á morgun laugardag fara fram úrslit á einstökum áhöldum en þrjú efstu liðin á hverju áhaldi fyrir sig komast áfram í úrslitakeppnina. Blandað lið Selfoss var eina Selfossliðið sem komst áfram í úrslit á morgun. Þau keppa um Íslandsmeistaratitil á öllum áhöldum og koma án efa sterk til leiks.

Mótið hefst klukkan 13:00 í Ásgarði í Garðabæ.