Björninn unninn í tveimur knattspyrnuleikjum

Bjarki Rúnar Jónínuson skoraði sigurmark Hamars. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Sunnlensku liðin KFR og Hamar unnu leiki sína í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Svo skemmtilega vildi til að bjarndýr voru andstæðingar liðanna í báðum tilfellum.

KFR sótti Björninn heim í B-riðlinum og mættust liðin á gervigrasvellinum í Grafarvoginum. Rangæingar byrjuðu vel og skoraði Trausti Rafn Björnsson tvívegis á upphafsmínútunum. Staðan var 0-2 í hálfleik en Björninn minnkaði muninn tólf mínútum fyrir leikslok með sjálfsmarki KFR. Það kom ekki að sök því Helgi Valur Smárason bætti þriðja marki KFR við í uppbótartímanum og tryggði 1-3 sigur.

Viðureign Hamars og Ísbjarnarins í C-riðlinum fór hins vegar fram á gervigrasinu við Kórinn í Kópavogi. Magnús Ingi Einarsson kom Hamri yfir á 13. mínútu og Bjarki Rúnar Jónínuson bætti við öðru marki á 32. mínútu. Staðan var 0-2 í leikhléi en Ingþór Björgvinsson bætti þriðja marki Hamars við um miðjan seinni hálfleikinn og innsiglaði 0-3 sigur.

KFR er í toppsæti B-riðils 4. deildar með 23 stig og Hamar er í toppsæti C-riðilsins með 27 stig. Bæði lið eru með sæti í úrslitakeppni 4. deildarinnar í seilingarfjarlægð.

Fyrri greinSelfyssingar fyrstar til að sigra Blika
Næsta greinHraðakstursbrot skiptast jafnt á milli Íslendinga og útlendinga