Björn og Ágúst bestir hjá Hamri

Björn M. Aðalsteinsson og Ágúst Örlaugur Magnússon voru valdir bestu leikmenn Hamars en lokahóf meistaraflokks fór fram um síðustu helgi.

Björn var valinn af stjórninni og Ágúst Örlaugur af leikmönnum liðsins.

Góð stemmning var á lokahófinu sem haldið var í Eden en Hamar náði sínum besta árangri frá upphafi í sumar þegar liðið varð í 8. sæti 2. deildar karla.

Fjöldi viðurkenninga var veittur á lokahófinu en Sveinn Ingi Einarsson var valinn efnilegasti leikmaðurinn og Axel Ingi Magnússon var markakóngur Hamars með 12 mörk. Þá valdi Jón Aðalsteinn Kristjánsson þjálfari Ágúst Örlaug mikilvægasta leikmanninn innan vallar sem utan.

Helgi Guðnason átti mark ársins, þrumufleyg af löngu færi á móti Gróttu í bikarkeppninni. Þá fengu nokkrir leikmenn viðurkenningu vegna leikjafjölda, m.a. Helgi og Sigurður Gísli Guðjónsson sem fengu 75 leikja verðlaun.