Björn áfram með Selfossliðið

Björn Sigurbjörnsson, þjálfari Selfoss. Ljósmynd: fotbolti.net/Hafliði Breiðfjörð

Björn Sigurbjörnsson mun áfram þjálfa kvennalið Selfoss í knattspyrnu. Hann skrifaði undir nýjan tveggja ára samning í síðustu viku.

Björn tók við liði Selfoss fyrir tímabilið 2022 og varð liðið í 5. sæti í Bestu deildinni það tímabil. Selfyssingar náðu sér ekki á skrið í deildinni í sumar og féllu niður í 1. deildina.

„Ég er mjög ánægður með að mér sé sýnt áframhaldandi traust hér á Selfossi og að ég fái tækifæri til að vinna áfram með þann hóp sem við erum búin að vera að móta undanfarin tvö ár. Vissulega verða breytingar á hópnum í ljósi þess að einhverjar leggja skóna á hilluna og aðrar róa á önnur mið, en kjarninn verður að mörgu leyti sá sami,” segir Björn í tilkynningu frá Selfyssingum.

„Það er stór hópur yngri leikmanna sem er búinn að vera að banka á dyrnar hjá meistaraflokki undanfarin ár og mun hljóta traust til þess að taka lykilstöður í liðinu og það er gríðarlega spennandi tími framundan hjá okkur,” segir Björn ennfremur.

Fyrri greinSeljavallalaug 100 ára
Næsta greinÞjóðveginum lokað austan við Markarfljót