Björgvin setti Íslandsmet í snörun

Stokkseyringurinn Björgvin Karl Guðmundsson, Lyftingafélagi Reykjavíkur, setti nýtt Íslandsmet í snörun í 85 kg flokki þegar keppt var í ólympískum lyftingum á Reykjavik International Games um síðustu helgi.

Björgvin Karl hefur náð skjótum frama í CrossFit á síðustu misserum og er einn öflugasti CrossFittari landsins en ólympískar lyftingar, snörun og jafnhöttun, eru ein af grunnstoðum CrossFit þjálfunar.

Á mótinu um síðustu helgi bætti Björgvin sitt eigið Íslandsmet í snörun í 85 kg flokki þegar hann lyfti 112 kg. Í jafnhöttun lyfti Björgvin 132 kg í fyrstu tilraun og fór svo beint í tilraun til Íslandsmets, 141 kg sem hann rétt missti í tveimur tilraunum.

Hann bætti samt sem áður sinn besta árangur sinn besta árangur samanlagt um 3 kg og fór í fyrsta sinn yfir 300 Sinclair stig sem reiknuð eru út eftir því hversu mikilli þyngd lyftingamaðurinn lyftir í hlutfalli við eigin þyngd. Björgvin vóg 80 kg fyrir mótið og lyfti samtals 244 kg þannig að Sinclair stigin skiluðu honum 4. sæti á mótinu.

Myndband af Íslandsmetslyftu Björgvins má sjá á Facebooksíðu sunnlenska.is.

Fyrri greinFriðrik ver doktorsritgerð sína
Næsta greinFSu úr leik í Gettu betur