Björgvin rústaði fyrstu grein dagsins

Stokkseyringurinn Björgvin Karl Guðmundsson byrjaði annan keppnisdag Heimsleikanna í crossfit í Los Angeles í gærkvöldi frábærlega en hann sigraði með yfirburðum í fyrstu keppnisgreininni, Murph.

Greinin samanstendur af 1,6 km hlaupi, 100 upphífingum, 200 armbeygjum, 300 hnébeygjum og svo aftur 1,6 km hlaupi. Æfingin er framkvæmd í 10 kg þyngingarvesti og í 30 stiga hita. Björgvin sigraði með yfirburðum og leit hrikalega vel út en þetta er í fyrsta sinn sem hann sigrar keppnisgrein á Heimsleikunum. Þess má geta að hann kláraði æfinguna 17 mínútum á undan síðustu mönnum en nokkrir af keppendunum 40 náðu ekki að klára.

Næsta grein var snörunarstigi þar sem keppendur þurftu að snara mikilli þyngd í kappi við tímann. Um útsláttarkeppni var að ræða og komst Björgvin í undanúrslitin en var ekki í hópi þeirra fimm sem kepptu til úrslita. Hann lauk greininni í 13. sæti og færðist við það upp í 2. sæti í heildarkeppninni.

Þriðja og síðasta grein dagsins var svo fimm umferðir af tólf réttstöðulyfturm, níu hang power clean og sex power jerk með 93 kíló. Björgvin strögglaði svolítið í þeirri æfingu og lauk henni í 25. sæti og féll við það úr öðru sæti niður í það fjórða. Þar situr hann nú með 304 stig, rétt á eftir Finnanum Jonne Koski sem hefur 316 stig í 3. sæti. Bandaríkjamaðurinn Mathew Fraser hefur nokkra yfirburði með 426 stig í toppsætinu.

Í kvöld og nótt verður keppt í sprettum, hindrunarbraut, kaðlaklifri, handstöðupressum og max í Clean og jerk.

Fyrri greinAndri og Fannar í topp tíu
Næsta greinBerfótagarður opnaður á Engi