Björgvin Karl valinn í Evrópuúrvalið

Stokkseyringurinn Björgvin Karl Guðmundsson varð um síðustu helgi í 2. sæti CrossFit mótinu „The Kings of Wod“ sem haldið var í Madrid á Spáni.

Björgvin átti gott mót og var aðeins einu stigi frá fyrsta sætinu.

Annars er það að frétta af kappanum að hann var í síðustu viku valinn í fjögurra manna úrvalslið Evrópu sem mun mæta úrvalsliði Kanada, USA og Ástralíu á CrossFit Invitationals í Los Angeles þann 9. nóvember næstkomandi. Mótið er einn stærsti CrossFit viðburður heims, á eftir Heimsleikunum sjálfum.

Tveir karlar og tvær konur skipa hvert lið en í liði Evrópu eru auk Björgvins þau Annie Mist Þórisdóttir, Bretinn Samantha Briggs og Svíinn Lukas Högberg.

Það er margt um að vera á næstu vikum hjá Björgvini auk mótsins í Los Angeles en um næstu helgi keppir hann á haustmóti LSÍ í ólympískum lyftingum. Um aðra helgi mun hann svo reyna að verja Íslandsmeistaratiltil sinn á Íslandsmótinu í CrossFit. Fyrstu helgina í desember keppir Björgvin svo á Ítalíu á Italian Throwdown mótinu.

Fyrri greinSelfyssingar í eldlínunni á EM
Næsta greinÍsak Máni kominn með svarta beltið