Björgvin Karl sigraði í Dubai

Crossfitkappinn Björgvin Karl Guðmundsson sigraði á The Dubai Fitness Championship, mjög sterku Crossfit móti, sem haldið var í Abu Dhabi og lauk í gær.

„Þetta mót er eitt af mínum uppáhalds mótum. Ég keppti hérna í fyrra og varð í sjöunda sæti og alveg síðan þá er ég búinn að hlakka til að mæta hingað aftur. Borgin er frábær og andrúmsloftið hérna stórkostlegt. Ég er enn að reyna að ná því að ég hafi sigrað í keppninni en það er svo sannarlega gott að finna það að allt erfiðið á æfingunum á hverjum einasta degi skili sér með svona árangri,“ segir Björgvin Karl í pistli á Facebooksíðu sinni.

„Ég vil líka óska vinkonu minni, Annie Mist, til hamingju með sigurinn. Hún átti þetta skilið. Ég er mjög stoltur af þessum árangri okkar Íslendinganna og ég veit að Annie er það líka,“ sagði Björgvin Karl ennfremur.

Björgvin Karl, sem keppir fyrir hönd Crossfit Hengils í Hveragerði, fékk 1.137 stig en næstur honum var Bandaríkjamaðurinn Travis Mayer með 1.090 stig. Keppnin samanstóð af fimmtán greinum og þó að Björgvini hafi ekki tekist að sigra í neinni þeirra þá stóð hann efstur í lokin. Sigurlaunin á mótinu eru tæpar 5,3 milljónir króna.

Annie Mist Þórisdóttir, Crossfit Reykjavík, sigraði örugglega í kvennaflokki með 1.292 stig en næst henni kom Ungverjinn Laura Horvath með 1.188 stig. Annie Mist sigraði í fjórum af greinunum fimmtán.

Fyrri greinLéleg skotnýting Hamars
Næsta greinGnúpverjar skelltu FSu aftur