Björgvin Karl rústaði Íslandsmótinu

Stokkseyringurinn Björgvin Karl Guðmundsson varð um liðna helgi Íslandsmeistari í Crossfit í annað árið í röð. Hann gjörsamlega rústaði keppninni og endaði með 18 stig.

Næsti maður á eftir var með 55 stig, en sá sem hlýtur fæst stig á mótinu sigrar. Veitt er eitt stig fyrir að vinna hverja grein, tvö stig fyrir annað sætið og svo framvegis.

Mótið hófst með Esjuhlaupi á föstudeginum en svo tóku við sjö aðrar greinar sem dreifðust á föstudaginn og laugardaginn. Hápunktur mótsins var þegar Björgvin Karl kláraði svokallaðan snörunarstig og snaraði 120 kg tvisvar sinnum á 50 sekúndum, áður var hann búinn að gera það sama með 65 kg, 70, 75, 80 og svo framvegis upp í 120 kg.

Björgvin Karl sannaði enn og aftur að hann er langbesti crossfittari landsins.

Crossfit Hengill átti þrjá keppendur á mótinu. Auk Björgvins keppti eldri bróðir hans, Heiðar Ingi Heiðarsson, sem er reyndur keppnismaður í sportinu og Bragi Bjarnason sem var að keppa á sínu fyrsta móti. Bragi byrjaði mótið vel og vann Esjuhlaupið þegar hann hljóp upp að Steini í skítaveðri á rétt undir 30 mínútum.

Hér að neðan er myndband af seinni 120 kg snörun Björgvins.

Fyrri greinÞór mætir Keflavík í bikarnum
Næsta greinEngar uppsagnir og engri starfsstöð lokað