Björgvin Karl íþróttamaður Hveragerðis 2014

Björgvin Karl Guðmundsson lyftingamaður og keppandi í crossfit var kjörinn íþróttamaður Hveragerðis 2014 í hófi menningar-, íþrótta- og frístundanefndar í Listasafni Árnesinga í gær.

Björgvin er vel að titlinum kominn en hann setti þrjú Íslandsmet í ólympískum lyftingum á Reykjavíkurleikunum 2014, í snörun, jafnhöttun og í samanlögðum árangri og á sumarmóti LSÍ bætti hann aftur Íslandsmetið í snörun.

Björgvin keppir einnig í crossfit og hefur árangur hans verið frábær bæði í keppni innanlands og á erlendum grundum undanfarin ár. Björgvin er Íslandsmeistari í crossfit annað árið í röð og var í 3. sæti í Evrópumótinu í crossfit. Hann vann sér inn rétt til að keppa á heimsleikunum í crossfit en aðeins 50 bestu komast að og lenti Björgvin í 26. sæti.

Einnig var Björgvin valinn í lið Evrópu í liðakeppni í Crossfit gegn Ameríku, Canada og Ástralíu og var liðið í þriðja sæti aðeins 1 stigi á eftir Canada sem var í 2. sæti.

Það var glæsilegur hópur íþróttamanna sem tóku við viðurkenningum fyrir góðan árangur í sínum greinum en fjórtán íþróttamenn voru í kjöri íþróttamanns Hveragerðis auk þess fengu sex íþróttamenn viðurkenningu fyrir Íslandsmeistaratitil á árinu.

Auk Björgvins Karls voru tilnefnd þau Árni Veigar Thorarensson fyrir góðan árangur í badminton, Elín Hrönn Jónsdóttir fyrir góðan árangur í badminton, Elva Óskarsdóttir fyrir góðan árangur í hlaupum, Fannar Ingi Steingrímsson fyrir góðan árangur í golfi, Guðbjörg Valdimarsdóttir fyrir góðan árangur í blaki, Hafsteinn Valdimarsson fyrir góðan árangur í blaki, Janus Halldór Eiríksson fyrir góðan árangur í hestaíþróttum, Kristján Valdimarsson fyrir góðan árangur í blaki, Kristrún Rut Antonsdóttir fyrir góðan árangur í knattspyrnu og körfuknattleik, Ragnar Ágúst Nathanaelsson fyrir góðan árangur í körfuknattleik, Snorri Þór Árnason fyrir góðan árangur í akstursíþróttum, Tómas Ingvi Hassing fyrir góðan árangur í knattspyrnu og Úlfar Jón Andrésson fyrir góðan árangur í íshokkí.

Fyrri greinDagný Brynjarsdóttir er Sunnlendingur ársins 2014
Næsta greinTýndur maður fannst heill á húfi