Björgvin Karl fjórði á heimsleikunum

Ljósmynd/Instagramsíða @bk_gudmundsson

Björgvin Karl Guðmundsson varð í fjórða sæti á heimsleikunum í crossfit sem lauk í Madison í Wisconsin í Bandaríkjunum í kvöld.

Björgvin Karl var á meðal efstu manna alla keppnisdagana og var í 1. sæti þegar þremur keppnisgreinum af fimmtán var lokið. Hann seig niður töfluna þegar leið á keppnina en náði frábærum árangri og lyfti sér aftur upp á síðasta keppnisdeginum í dag, þar sem hann sigraði meðal annars í þrettándu keppnisgreininni.

Lokagreinin var æsispennandi og þriðja sætið var í seilingarfjarlægð hjá Björgvini en hann þurfti að gera sér fjórða sætið að góðu eftir grjótharða keppni.

Björgvin Karl hlaut 979 stig og var nítján stigum á eftir Kanadamanninum Brent Fikowski, sem varð í 3. sæti. Landi hans, Patrick Vellner, varð annar með 1.102 stig en Bandaríkjamaðurinn Justin Medeiros sigraði með 1.134 stig.

Þetta eru sjöundu heimsleikar Björgvins Karls en hans besti árangur er 3. sætið 2015 og 2019.

Fyrri greinBrúarhlaupinu frestað
Næsta greinYfir hundrað í einangrun á Suðurlandi