Björgvin Karl er þriðji hraustasti maður í heimi

Heimsleikunum í crossfit lauk í gærkvöldi í Kaliforníu en þar kom Stokkseyringurinn Björgvin Karl Guðmundsson öllum á óvart og hafnaði í 3. sæti. Þetta er aðeins í annað skipti sem Evrópubúi hefur náð á verðlaunapall í karlaflokki.

Björgvin Karl, sem einnig keppti á heimsleikunum í fyrra, segir mótið í ár hafa verið mun erfiðara, meiri þyngdir og mun meira „volume“. Leikarnir hófust á miðvikudaginn og innihéldu tólf keppnisgreinar þar á meðal sjósund, sjóbretti, olympískar lyftingar, kraftlyftingar, hlaup og ýmsar fimleikaæfingar sem allar reyndu verulega á líkamlega og ekki síður andlega getu keppenda. Að keppni lokinni sagði Björgvin líkamann vera nokkuð laskaðann eftir átökin. Hann hafi verið gjörsamlega búinn fyrir lokagreinina en hausinn var enn til staðar og hann hafi náð að halda einbeitingu og klára síðustu tvær greinarnar í 7. og 5.sæti og tryggja sér þannig 3. sætið í heildarkeppninni.

Árangur Björgvins vakti mikla athygli en hann var næstyngsti keppandinn í karlaflokki.

Heiðar Ingi, eldri bróðir Björgvins og eigandi Crossfit Hengils í Hveragerði, þar sem Björgvin Karl æfir og þjálfar, segir hann eiga þetta svo fyllilega skilið. „Það hefur verið ótrúlegt að fylgjast með honum síðustu þrjú árin. Hann hefur unnið að þessu á hverjum einasta degi. Æfingarnar hafa verið í fyrsta sæti frá því að hann áttaði sig á því að að þetta væri eitthvað sem hann væri góður í. Það er ótrúlegt að sjá hvað hann er alltaf fókuseraður. Að æfa að mestu einn og ná þessum árangri á svona stuttum tíma er að mörgu leyti alveg ótrúlegt en samt svo skiljanlegt fyrir okkur sem þekkjum Björgvin. Hann er bara íþróttamaður fram í fingurgóma, er einhvern veginn einn af þessum sem er góður í öllu, hvort sem það er snjóbretti, fótbolti, lyftingar eða fimleikar – hann skarar allsstaðar framúr og ég er alveg viss um að hann hefði getað orðið atvinnumaður í nánast hvaða grein sem er ef aðstæður hefðu verið ákjósanlegri.“

Björgvin hafnaði í 26. sæti á mótinu í fyrra en það vakti athygli í ár hversu jafna frammistöðu hann sýndi. Hann var eini keppandinn sem hélt sér í topp sex alveg frá því að fyrstu keppnisgrein lauk. Hann var meðal tuttugu efstu í hverri grein fyrir sig, fyrir utan tvær greinar sem voru einmitt þær þyngstu á mótinu.

„Það er mjög jákvætt að tvær lélegustu greinarar hans sé sama eðlis. Björgvin er mjög fær með lyftingastöngina, er einn best lyftari landsins en mótherjarnir eru sumir bara svo gríðarlega sterkir. Björgvin mun nota off-seasonið í að styrkja sig enn frekar og tekur þetta svo næst,“ segir Heiðar brosandi.

Framundan segir Björgvin vera hvíld í nokkra daga og svo muni hann bara hefjast aftur handa við æfingar og þjálfun í Henglinum þar sem hann mun taka á móti nýjum og gömlum ,,Henglurum“ eftir nokkuð langa fjarveru.

Fyrri greinFerðamaður staðinn að þjófnaði á Geysi
Næsta greinÁrborg hafði betur í hörkuleik