Björgvin Karl annar á Evrópumótinu

Stokkseyringurinn Björgvin Karl varð í öðru sæti á Evrópumótinu í Crossfit, Meridian Regionals, sem lauk í Kaupmannahöfn í dag.

Björgvin sýndi stöðuga og jafna frammistöðu í öllum sjö keppnisgreinum mótsins og hélt sér í 2. sæti alla keppnisdagana þrjá. Með frammistöðu sinni tryggði hann sér, annað árið í röð, farseðil á heimsleikanan í Crossfit, sem fram fara í Los Angeles í sumar.

Íslensku keppendurnir hreinlega áttu mótið. Lið Crossfit Reykjavíkur tryggði sér 3ja sæti og fjórar af fimm efstu stelpunum á mótinu eru íslenskar, Þuríður Helgadóttir var í 5. sæti, Annie Mist Þórisdóttir í 3. sæti, Katrín Tanja Davíðsdóttir í 2. sæti og Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir í 1. sæti. Þau Ragnheiður Sara og Björgvin eru með sama lyftingaþjálfara og hafa æft saman reglulega síðasta árið.

Tuttugu manna hópur úr Crossfit Hengli í Hveragerði fylgdi Björgvini út og var frábær stemmning hjá hópnum á mótinu.