Björgvin byrjar vel á heimsleikunum

Björgvin Karl.

Eftir fyrsta keppnisdag á Heimsleikunum í crossfit situr Stokkseyringurinn Björgvin Karl í 6. sæti í karlakeppninni, að loknum tveimur keppnisgreinum.

Fyrsta greinin samanstóð af 1.000 m sjósundi og 3,2 km handróðri á sjóbretti. Björgvin stóð sig framar vonum og skilaði sér sjötti í mark.

Seinni keppnisgreinin gekk út á að koma misþungum sandpokum frá A til B. Sú keppnisgrein reyndist mörgum keppendum mjög erfið en fyrir utan þyngd pokanna var bæði gríðarlega heitt og rakt á keppnisvellinum. Björgvin endaði í sautjánda sæti í þessari grein og hélt 6. sætinu í heildarkeppninni.

Í dag er frí hjá keppendum en keppnin hefst að nýju á morgun, föstudag, þar sem keppt verður í snörunarstigi (snatch) og „murph“ (1 míla hlaup, 100 upphífingar, 200 armbeygjur, 300 hnébeygjur, 1 míla hlaup).

Fyrri greinÁrborgarar gáfu Létti sigurmarkið
Næsta greinÍrsk þjóðlagatónlist og villt barokk í Skálholti