Björgvin þriðji á Evrópuleikunum

Crossfittarinn Björgvin Karl Guðmundsson frá Stokkseyri tryggði sér í gær 3. sæti á Evrópuleikunum í crossfit eftir gríðarlega harða keppni, en mótið fór fram í Kaupmannahöfn.

Með árangri sínum tryggði Björgvin sér farseðilinn á heimsleikana í Crossfit sem fara fram í Los Angeles í júlí næstkomandi en þar mun hann keppa í hópi bestu crossfittara heims.

Til að komast á Evrópuleikana þurfti Björgvin að taka þátt í Crossfit Open sem er undankeppni sem stóð yfir í fimm vikur og innihélt fimm æfingar. Allir gátu tekið þátt í Crossfit Open, en keppendur skiluðu inn staðfestu skori rafrænt og tóku yfir 200.000 manns þátt í keppninni í ár. Af þessum gríðarlega fjölda keppenda varð Björgvin Karl í 2. sæti af þátttakendum frá Evrópu en 48 efstu körlunum var boðin þátttaka á Evrópuleikunum.

Mótið í Kaupmannahöfn stóð yfir í þrjá daga en því lauk í gær, sunnudag. Á þessum þremur dögum voru sjö æfinga, eða wod, sem keppendur kepptu í og sem fyrr segir uppskar Björgvin 3. sætið eftir harða keppni.

Það er nóg að gera hjá Stokkseyringnum sterka en um næstu helgi keppir hann með íslenska landsliðinu á Norðurlandamóti í Ólympískum lyftingum.

Fyrri greinÍtrekaðar skemmdir á söluhúsum
Næsta greinRæðumenn sammála um nauðsyn uppbyggingar