Bjarki setti Íslandsmet í 60 m hlaupi

Frjálsíþróttadeild Selfoss sendi vaska sveit ungmenna til keppni á Silfurleika ÍR um helgina Frábær árangur náðist á þessu fyrsta móti vetrarins.

Selfosskrakkarnir sópuðu til sín verðlaunum og bættu sig mikið.

Bjarki Ragnarsson keppti í þremur greinum í flokki 13 ára og vann gullverðlaun í þeim öllum. Í 60 m hlaupi hljóp hann á 7,77 sek og setti stórglæsilegt Íslandsmet auk þess sem hann setti HSK-met í flokkum 13 og 14 ára. Í þrístökki stökk hann 11,22 m sem er nýtt HSK-met og var aðeins 30 cm frá Íslandsmeti. Í grindahlaupi hljóp hann á 9,97 sek.

Andrea Sól Marteinsdóttir, setti nýtt Selfossmet í kúluvarpi 15 ára meyja, þegar hún kastaði 3 kg kúlu 12,45 m, og bætti sig um 51 cm. Með þessum árangri náði Andrea Sól lágmarki í afrekshóp unglinga hjá FRÍ en sá hópur samanstendur af efnilegustu unglingum landsins.

Sigþór Helgason, setti þrjú HSK-met og jafnaði eitt í flokki 14 ára auk þess að vinna til fjögurra verðlauna. Hann jafnaði eigið HSK-metið í hástökki þegar hann sigraði með 1,75 m. Auk þess setti hann HSK met í þrístökki, 200 m hlaupi og 60 m grindahlaupi.

Dagný Lísa Davíðsdóttir, sigraði í hástökki 14 ára, þegar hún stökk yfir 1,55 m og jafnaði í leiðinni HSK-met Dagnýjar Hönnu Hróbjartsdóttur. Dagný Lísa vann að auki silfurverðlaun í þrístökki og brons í kúluvarpi.

Harpa Svansdóttir stóð sig vel í flokki 12 ára. Hún keppti í fimm greinum og bætti sig í þeim öllum og bætti HSK-met í þremur þeirra. Harpa sigraði á nýju HSK meti í þrístökki þegar hún stökk 10,18 m og í hástökki setti hún einnig HSK met með stökk upp á 1,40 m. Auk þess setti hún HSK met í 60 m hlaupi.

Halla María Magnúsdóttir keppti í fjórum greinum í flokki 12 ára og sigraði í tveimur þeirra. Í 60 m hlaupi sigraði hún á nýju HSK-meti 8,63 sek og hún sigraði einnig örugglega í kúluvarpi með 11,69 m.

Nánar á UMFS.is