Bjarki Norðurlandameistari annað árið í röð

Bjarki Breiðfjörð tekur við verðlaunum sínum eftir að hafa varið Norðurlandameistaratitilinn. Ljósmynd/Aðsend

Hinn átján ára gamli Bjarki Breiðfjörð Björnsson, Umf. Selfoss, varð um helgina Norðurlandameistari í ólympískum lyftingum í flokki U-20 ára.

Mótið fór fram í Stavern í Noregi um síðustu helgi og þangað fór lang fjölmennasti hópurinn sem Lyftingasamband Íslands hefur sent frá sèr á mót erlendis. Alls kepptu ellefu ungmenni og unglingar í flokki U-17 og U-20 ára, og þar af voru þrír Sunnlendingar.

Bjarki, sem keppir í -73 kg flokki, snaraði 101 kg og náði 115 kg í jafnhendingu. Hann er greinilega í góðu formi þessa dagana og stefnir nú í framhaldinu á bæði Evrópumeistara- og heimsmeistaramót.

Bergrós Björnsdóttir, systir Bjarka, var yngsti keppendinn í -71 kg flokki kvenna, en hún er aðeins 14 ára gömul. Bergrós náði sömuleiðis frábærum árangri, landaði 2. sætinu eftir harða baráttu við 16 og 17 ára stelpur. Hún snaraði 80 kg, náði 97 kg Í jafnhendingu og sló þar með öll Íslandsmetin í U-15 ára flokki og er búin að tryggja sér sæti á Evrópu- og heimsmeistaramótunum í ólympískum lyftingum.

Þorlákshafnarmærin Bríet Anna Heiðarsdóttir, sem er 16 ára gömul og keppir fyrir Lyftingafélagið Hengil í Hveragerði, stóð sig einnig gríðarlega vel á sínu fyrsta stórmóti í -64kg flokki. Hún náði 62 kg í snörun sem er persónuleg bæting um 4 kg og 72 kg í jafnhendingu sem er 1 kg bæting, 132 kg í samanlagðri þyngd.

Bjarki snarar 101 kg. Ljósmynd/Aðsend
Bergrós í jafnhendingu. Ljósmynd/Aðsend
Bríet í botnstöðu í snörun. Ljósmynd/Aðsend
Stolt móðir, Berglind Hafsteinsdóttir, með afreksunglingana sína í stúkunni. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinÞrettán mörk frá Ísaki dugðu ekki til
Næsta greinHlaupvatn komið í Gígjukvísl