Bjarki með tvennu fyrir Hamar

Bjarki Rúnar Jónínuson skoraði tvö mörk fyrir Hamar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar fer vel af stað í 4. deild karla í knattspyrnu en liðið mætti Álafossi í 1. umferðinni í kvöld og vann öruggan 3-1 sigur.

Bjarki Rúnar Jónínuson kom Hamri yfir á 13. mínútu og Pétur Geir Ómarsson bætti við öðru marki fyrir Hvergerðinga á 37. mínútu. Staðan var 2-0 í hálfleik.

Bjarki Rúnar var aftur á ferðinni á 62. mínútu en gestirnir í Álafossi áttu síðasta orðið þegar þeir minnkuðu muninn í 3-1 á 80. mínútu og þær urðu lokatölur leiksins.

Hamar og Ægir í úrslitakeppnina?
Hamri er spáð 2. sætinu í C-riðlinum og þar með sæti í úrslitakeppninni en Stokkseyringum er spáð 8. og neðsta sæti í sama riðli. Ægismönnum er spáð 1. sæti D-riðils og KFR 6. sæti í sama riðli. Spámaður fotbolti.net setur svo Árborg í 3. sætið í A-riðlinum.

Stórleikur umferðarinnar á Hvolsvelli
KFR og Ægir eigast við í stórleik 1. umferðarinnar í D-riðlinum á morgun, miðvikudagskvöld og Árborg hefur leik á fimmtudagskvöld þegar liðið heimsækir Ými í A-riðlinum. Stokkseyringar fá svo Hörð frá Ísafirði í heimsókn á föstudagskvöld í C-riðlinum.

Fyrri greinSölvi læsti Haukana úti
Næsta greinÞjóðaröryggisráð fundaði um viðbrögð við eldgosi og hópslysum