Bjarki bætti sig og landaði Íslandsmeistaratitli

Ljósmynd/Árni Rúnar Baldursson

Bjarki Breiðfjörð Björnsson, Umf. Selfoss, kom heim með tvenn gullverðlaun og ein silfurverðlaun af Íslandsmóti unglinga og Jólamóti LSÍ í ólympískum lyftingum, sem fram fóru í Sporthúsinu í Kópavogi síðastliðinn sunnudag.

Bjarki varð Íslandsmeistari í -81 kg flokki karla undir 20 ára, ásamt því að enda stigahæstur í undir 20 ára flokki. Hann varð einnig annar stigahæsti keppandinn í karlaflokki á öllu mótinu, með 314,3 Sinclair stig.

Bjarki á verðlaunapalli. Ljósmynd/Árni Rúnar Baldursson

Bjarki bætti sinn besta keppnisárangur á mótinu en hann lyfti 117 kg í snörun, sem er 1 kg bæting og 138 kg í jafnhendingu, sem er 8 kg bæting og gerir 255 kg í samanlagðri þyngd.

Ekki er nema rétt rúmlega mánuður síðan Bjarki keppti á Norðurlandamótinu, þar sem hann varð Norðurlandameistari þriðja árið í röð. Þess má geta að Bjarki er tilnefndur til Íþróttakarls Árborgar 2022, en hann er þó ekki með í netkosningunni í ár þar sem að lyftingadeild UMFS skilaði tilnefningunni inn eftir að kosningin var hafin.

Ölfusingurinn Bríet Anna Heiðarsdóttir, úr Lyftingafélaginu Hengli, stóð sig einnig mjög vel á mótinu og varð í 2. sæti í -64 kg flokki kvenna U17 ára. Bríet snaraði 63 kg og tók 72 kg í jafnhendingu. Auk Bjarka og Bríetar tóku tveir aðrir sunnlenskir keppendur þátt í mótinu; Rakel Hlynsdóttir, Hengli og Marel Bent Björgvinsson, Umf. Selfoss, en þau komust ekki á verðlaunapall að þessu sinni.

Bríet Anna náði góðum árangri og varð í 2. sæti. Ljósmynd/Árni Rúnar Baldursson
Fyrri greinMannamót – styrkir tengsl og eykur þekkingu
Næsta greinMistilteinn lokar á aðfangadag