Bitlausir Selfyssingar töpuðu

Selfyssingar tóku á móti Fjölni í 1. umferð 1. deildar karla í knattspyrnu í kvöld þar sem gestirnir fóru með sigur af hólmi, 2-3.

Selfyssingar voru ákveðnir fyrstu tíu mínúturnar og gerðu sig líklega upp við mark Fjölnis án þess þó að fá hættuleg færi. Fjölnismenn, sem komust varla fram yfir miðju í upphafi, skoruðu svo úr sinni fyrstu sókn á 10. mínútu en þar var að verki Bjarni Gunnarsson.

Strax mínútu síðar fékk svo Guðmundur Karl Guðmundsson boltann fyrir utan teig og smurði honum upp undir samskeytin og kom Fjölni í 0-2. Dýr mistök hjá sofandi Selfyssingum en mörk Fjölnis slógu heimamenn út af laginu og fyrri hálfleikur var bragðdaufur eftir þetta.

Ekki dró til tíðinda fyrr en á 41. mínútu þegar Sigurður Eyberg braut á Guðmundi Karli innan teigs og Fjölnismenn fengu vítaspyrnu. Illugi Gunnarsson fór á punktinn og skoraði af öryggi framhjá vítabananum Jóhanni Ólafi.

Selfoss náði að minnka muninn á síðustu mínútu fyrri hálfleiks. Jón Daði Böðvarsson fékk þá boltann á miðjunni, sendi hann til hægri á Arilíus Marteinsson sem átti góða sendingu inn í vítateiginn. Þar var Joe Tillen staddur og hamraði hann boltann viðstöðulaust í netið. Andartökum fyrr var Bjarni Gunnarsson í dauðafæri hinu megin á vellinum en Jóhann Ólafur varði vel frá honum.

Staðan var 1-3 í hálfleik en síðari hálfleikur var jafn bragðdaufur og kaffið í blaðamannastúkunni. Fjölnismenn lágu skipulega til baka og Selfyssingar voru meira með boltann án þess að skapa sér eitt einasta færi. Helst var að hreyfing kæmist á hlutina þegar Joe Tillen var nálægt boltanum en það gerðist sjaldan. Flugeldur sem skotið var upp af tjaldsvæðinu og sprakk yfir vellinum var það eina sem gladdi augað lengst af seinni hálfleik en þegar leið á leikinn fóru Selfyssingar að herða tökin enn frekar.

Ibrahima Ndiaye kastaði líflínu til Selfyssinga á 78. mínútu með góðu marki þar sem hann fylgdi eftir skoti frá Jóni Daða sem Hrafn Davíðsson í marki Fjölnis varði. Mínúturnar liðu og sóknir Selfoss brotnuðu á varnarmúr Fjölnismanna.

Það var ekki fyrr en í uppbótartíma að Selfoss átti tvær góðar tilraunir. Sigurður Eyberg átti bylmingsskot að marki sem Hrafn markvörður varði glæsilega. Uppúr hornspyrnunni rifjaði Auðun Helgason upp gamla skutluskallann en aftur varði Hrafn með fingurgómunum í horn. Þetta var síðasta færi leiksins og Selfyssingar svekktir með eigin frammistöðu í leikslok.

Fyrri greinGert að fjarlægja áfengisauglýsingar
Næsta grein„Vorum kærulausir í upphafi”