Birna Sólveig íþróttamaður USVS 2019

Birna Sólveig Kristófersdóttir. Ljósmynd/USVS

Birna Sólveig Kristófersdóttir, Umf. Kötlu, var útnefnd Íþróttamaður Ungmennasambands V-Skaftafellssýslu á 50. ársþingi sambandsins sem fram fór síðastliðinn sunnudag á Kirkjubæjarklaustri.

Tveir íþróttamenn voru tilnefndir í kjörinu, Birna Sólveig og Vilborg Smáradóttir Hestamannafélaginu Sindra.

Birna náði góðum árangri á frjálsíþróttavellinum á síðasta ári og vann til þriggja verðlauna á Meistaramóti Íslands 12-22 ára innanhúss, silfur í 1.500 m hlaupi og brons í 400 m hlaupi og þrístökki. Þá varð hún unglingalandsmótsmeistari í þrístökki og í 2. sæti í grindahlaupi á Unglingalandsmóti UMFÍ á Höfn. Birna stundar einnig fimleika af miklu kappi hjá Hamri, Umf. Selfoss og fimleikaakademíu FSu.

Stephanie Ósk Ingvarsdóttir var valin efnilegasti íþróttamaður USVS en hún vann mörg afrek á frjálsíþróttavellinum árið 2019. Hún varð fjórfaldur Íslandsmeistari á Meistaramóti Íslands 11-14 ára innanhús og utanhús í langstökki og hástökki. Á sumarmóti Umf. Þórs og Kötlu sló hún Íslandsmetið í flokki 12 ára stúlkna, stökk 1,57 m. Hún varð einnig fjórfaldur unglingalandsmótsmeistari; í hástökki, langstökki, þrístökki og 60 m hlaupi.

Stephanie Ósk Ingvarsdóttir. Ljósmynd/USVS
Fyrri greinKnarrarósviti opinn fyrir almenning
Næsta greinStarfsfólk Kirkjuhvols á toppi Eyjafjallajökuls