Bilið minnkar á toppnum

Jordan Adeyemo. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ægismenn gerðu ekki góða ferð austur í Fellabæ í dag, þar sem þeir heimsóttu Hött/Huginn í 2. deild karla í knattspyrnu.

Ægir byrjaði betur, Jordan Adeyemo kom þeim yfir á 8. mínútu en þegar hálftími var liðinn fékk Benedikt Darri Gunnarsson tvö gul spjöld með fjögurra mínútna millibili. Ægismenn voru því manni færri síðasta klukkutímann og við það þyngdist róðurinn talsvert.

Höttur/Huginn jafnaði 1-1 þegar korter var liðið af seinni hálfleiknum og tíu mínútum síðar höfðu heimamenn tekið forystuna. Ægir átti engin svör við þessu og þriðja mark Hattar/Hugins leit dagsins ljós í uppbótartímanum.

Þrátt fyrir tap í síðustu tveimur leikjum er Ægir enn í toppsæti deildarinnar en bilið niður í næstu lið hefur minnkað. Ægir er með 35 stig, þar á eftir kemur Þróttur Vogum með 33 stig og Grótta með 32 stig. Í næstu umferð tekur Ægir á móti Gróttu.

Fyrri greinMögulega rafmagnslaust aðfaranótt þriðjudags
Næsta greinBaráttan við botninn harðnar