Bikarvörnin byrjar vel

Hólmfríður Magnúsdóttir skoraði tvö af þremur mörkum Selfoss. Ljósmynd: fotbolti.net/Hafliði Breiðfjörð

Bikarmeistarar Selfoss sigruðu Stjörnuna á útivelli í kvöld í 16-liða úrslitum bikarkeppni kvenna í knattspyrnu. Sigurinn var öruggur, 0-3.

Selfoss var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en það tók dágóða stund að brjóta ísinn. Bæði lið höfðu fengið ágæt færi en á 42. mínútu sendi Magdalena Reimus boltann innfyrir á Hólmfríði Magnúsdóttur sem skoraði af öryggi.

Staðan var 0-1 í hálfleik en strax á fimmtu mínútu síðari hálfleik kom Hólmfríður Selfyssingum í 0-2. Aftur var það Magdalena sem lagði upp markið með góðri fyrirgjöf sem Hólmfríður skallaði í netið.

Hólmfríður fékk svo kjörið tækifæri til þess að ná þrennu í leiknum því Selfoss fékk vítaspyrnu á 63. mínútu eftir að brotið var á Magdalenu í teignum. Hólmfríður skaut hins vegar himinhátt yfir markið úr vítaspyrnunni.

Á 77. mínútu innsiglaði Dagný Brynjarsdóttir svo 0-3 sigur Selfoss. Eftir aukaspyrnu úti á miðjum velli barst boltinn á Dagnýju í teignum og hún átti ekki í neinum vandræðum með að skora.

Selfyssingar verða því í pottinum þegar dregið verður í 8-liða úrslit kl. 18 á morgun.

Fyrri greinOrkídeu ýtt úr vör
Næsta greinÁrborg og Hamar unnu mikilvæga sigra