Bikarvonir Þórsara brostnar

Þór Þorlákshöfn er úr leik í Powerade-bikar karla í körfubolta eftir 91-83 tap fyrir Snæfelli í hörkuleik í Stykkishólmi í kvöld.

Liðin mættust í Hólminum í síðasta deildarleik og þar fóru Þórsarar með sigur af hólmi. Snæfellingar sáu við þeim í kvöld og eru komnir í 8-liða úrslit bikarkeppninnar.

Fyrri hálfleikur var jafn og spennandi en staðan í hálfleik var 50-50 en Snæfellingar jöfnuðu með síðustu körfu fyrri hálfleiks.

Snæfell komst yfir strax í upphafi 3. leikhluta og hélt því forskoti með naumindum út leikhlutann. Munurinn jókst lítillega í síðasta fjórðungnum en Þórsarar önduðu hressilega ofan í hálsmálið á Hólmurum á lokakaflanum.

David Jackson var stigahæstur hjá Þór með 23 stig, Benjamin Smith skoraði 22 og Darrell Flake 16.

Fyrri greinHamar úr leik í bikarnum
Næsta greinHlaðan opnuð á Selfossi