Bikarslagur á Selfossi í kvöld

Kvennalið Selfoss í knattspyrnu mætir Val í 16-liða úrslitum Borgunarbikarsins á Selfossvelli kl. 19:15 í kvöld.

Stelpurnar mæta þarna fyrrum lærisveinum Gunnars Borgþórssonar, þjálfara, en Valsliðið fór í bikarúrslitin í fyrra þar sem liðið beið lægri hlut gegn Stjörnunni. Leikurinn í kvöld er einnig systraslagur því með Val spilar Hlíf Hauksdóttir frá Hvolsvelli en systir hennar Hrafnhildur er í liði Selfoss. Rangæingarnir í Valsliðinu eru reyndar fleiri því Dagný Brynjarsdóttir verður væntanlega í byrjunarliði Vals.

Selfossliðið náði frábærum úrslitum gegn Íslandsmeisturum Þórs/KA í seinustu umferð Pepsi-deildarinnar og mæta fullar sjálfstraust til leiks. Tiana Brockway tekur út leikbann í leiknum og Anna Garðarsdóttir er enn að jafna sig eftir sprunginn botnlanga en annars eru allir liðsmenn heilir og hugur í þeim.

Stuðningsmenn liðsins eru hvattir til að mæta á völlinn og styðja stelpurnar til sigurs og stuðningsmannakaffið er á sínum stað í Selinu í hálfleik. Þar sem þetta er bikarleikur gilda stuðningsmannakortin ekki inn á völlinn.

Fyrri greinSkuggabandið á Kaffi Rós
Næsta greinKynningarfundur í dag