Bikarleikirnir í beinni

Tvö lið frá Selfossi hafa tryggt sér sæti í bikarúrslitaleikjum yngri flokka í handbolta sem fram fara í Laugardalshöll á sunnudaginn.

4. flokkur karla spilar klukkan 12:00 gegn FH og 2. flokkur karla spilar klukkan 19:00 á móti Val.

Selfyssingar eru hvattir til að mæta í Höllina og styðja við bakið á sínum mönnum en þeir sem ekki komast á staðinn geta fylgst með leikjunum í beinni útsendingu á sportTV.is.

Það verður reyndar sannkölluð handboltaveisla á SportTV.is um helgina þar sem átta leikir verða í beinni útsendingu. Kl. 13:30 á laugardag verður sýndur Meistaradeildarleikur Füchse Berlin og Bjerringbro-Silkeborg en með danska liðinu leikur Guðmundur Árni Ólafsson. Kl. 16 verður Þórir Ólafsson í eldlínunni með Vive Targi Kielce gegn Chekhovskie Medvedi í Meistaradeildinni en Anton Gylfi Pálsson og Hlynur Leifsson dæma þann leik.