Það var ótrúleg stemmning á Tryggvatorgi á Selfossi í kvöld þegar Selfyssingar fögnuðu sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli í boltaíþrótt í meistaraflokki.

Í áratugi hafa Selfyssingar notað slagorðið „bikarinn yfir brúna“ þegar titill hefur verið í húfi. Og nú var loksins komið að því. Einn var þó hængur á. Bikarinn vannst á heimavelli. En það var leyst á einfaldan hátt því Selfossliðið fór upp í rútu, ók út fyrir á og kom svo með bikarinn yfir brúna í lögreglufylgd þar sem gríðarlegur mannfjöldi tók á móti þeim með blysum og flugeldasýningu.

Það var sungið og trallað undir stjórn Ingólfs Þórarinssonar og Skjálfta og síðan voru Íslandsmeistararnir kynntir upp á svið við gríðarleg fagnaðarlæti.

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, þakkaði stuðningsmönnum fyrir veturinn og uppskeruna, Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Árborgar, færði deildinni hamingjuóskir og tvær milljónir króna úr bæjarsjóði í verðlaun og Helgi S. Haraldsson, varaformaður HSK, tilkynnti um 400 þúsund króna afreksstyrk úr sjóði sambandsins.

Í stuttu máli sagt var hamingjan við völd og stemmningin einstök.

Móttaka fyrir meistarana. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Það var brjáluð stemmning á Tryggvatorgi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinSELFYSSINGAR ÍSLANDSMEISTARAR Í HANDBOLTA
Næsta greinDraumurinn rættist hjá Hergeiri