Bikarinn áfram í Vesturbænum

Annað árið í röð misstu Þorlákshafnar-Þórsarar af bikarmeistaratitlinum í körfubolta eftir tap gegn KR. Lokatölur í Laugardalshöllinni urðu 78-71.

Þórsarar höfðu frumkvæðið framan af fyrri hálfleiknum en KR náði að komast yfir á lokamínútu 2. leikhluta og staðan var 35-34 í hálfleik.

KR-ingar voru mun sterkari í 3. leikhluta og náðu mest 15 stiga forskoti í upphafi þess fjórða, 70-55. Útlitið svart fyrir Þórsara. En körfuboltinn er leikur áhlaupa og Þórsarar náðu að minnka muninn í sex stig þegar rúmlega ein og hálf mínúta var eftir. Miði er möguleiki.

Þórsarar náðu þó ekki að brúa bilið, munurinn varð minnstur fimm stig á lokamínútunni, og bikarinn fær að dvelja annað ár í Vestubænum.

Tölfræði Þórs: Tobin Carberry 29 stig/8 fráköst/9 stoðsendingar, Emil Einarsson 15 stig/11 fráköst, Maciej Baginski 10 stig/5 fráköst, Ragnar Örn Bragason 10 stig, Halldór Garðar Hermannsson 7 stig.