Bikarinn á loft í Set-höllinni

Perla Ruth Albertsdóttir, fyrirliði Selfoss, lyftir deildarmeistarabikarnum í leikslok. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Kvennalið Selfoss uppskar sigurlaunin í 1. deildinni í handbolta í kvöld á heimavelli sínum í Set-höllinni eftir stórsigur á FH í sextándu umferð deildarinnar. Selfoss hafði fyrir leikinn tryggt sér sigur í deildinni en þær hafa ekki tapað leik í vetur.

Það tók Selfyssinga smá stund að ná taktinum en eftir fjórtán mínútna leik var staðan orðin 8-3 og eftirleikurinn auðveldur fyrir heimakonur. Staðan í hálfleik var 18-10.

Selfoss skoraði fyrstu sex mörkin í seinni hálfleik og þar með var björninn unninn, staðan orðin 24-10. Munurinn varð mestur nítján mörk en á lokamínútunum dró aftur saman með liðunum og lokatölur urðu 36-20.

Perla Ruth Albertsdóttir var markahæst Selfyssinga með 9/1 mörk, Harpa Valey Gylfadóttir skoraði 7, Tinna Sigurrós Traustadóttir 6, Arna Kristín Einarsdóttir 5, Hulda Hrönn Bragadóttir 3, Katla María Magnúsdóttir og Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir 2 og þær Adela Jóhannsdóttir og Eva Lind Tyrfingsdóttir skoruðu sitt markið hvor.

Cornelia Hermansson varði 5 skot í marki Selfoss og Ágústa Tanja Jóhannsdóttir átti frábæra innkomu á lokakaflanum og varði 9 skot.

Það var frábær stemning í Set-höllinni í kvöld og fjöldi stuðningsmanna fagnaði með liðinu í leikslok. Selfyssingar snúa nú aftur í úrvalsdeildina eftir einn vetur í 1. deildinni.

Selfossliðið og stuðningsmenn þeirra fögnuðu vel í leikslok. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Gleðin var mikil þegar lokaflautið gall. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Áslaug Ýr Bragadóttir og Perla Ruth Albertsdóttir eru að ala upp meistaraefni framtíðarinnar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Ætlunarverkinu lokið. Sjáumst í Olísdeildinni! sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinBarbára kom Blikum á bragðið
Næsta greinGet ekki horft á fólk bursta í sér tennurnar