Bikarinn á loft í Þorlákshöfn

Þórsarar fengu í kvöld afhentan bikarinn fyrir sigur í 1. deild karla í körfubolta. Þór lagði Skallagrím, 85-79 í Þorlákshöfn.

Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann en Þórsarar voru skrefinu á undan og leiddu allan seinni hálfleik. Staðan í leikhléi var 41-37 fyrir Þórsurum. Skallagrímur andaði ofan í hálsmálið á Þór allan seinni hálfleik en náði ekki að brjóta heimamenn á bak aftur.

Fyrirliðinn Baldur Ragnarsson lyfti bikarnum í leikslok en hann átti frábæran leik í kvöld með 21 stig, 9 fráköst og 7 stoðsendingar. Þorsteinn bróðir hans skoraði einnig 21 stig, Vladimir Bulut 13 og Grétar Ingi Erlendsson 10.

Fyrri greinÁ ekki við um alla sýsluna
Næsta greinU2 messur í dag