Lið Selfoss fór taplaust í gegnum 2. deild kvenna í knattspyrnu í sumar og eftir leikinn gegn Völsungi í lokaumferðinni í dag fór deildarmeistarabikarinn á loft á Selfossvelli.
Selfoss hafði mikla yfirburði framan af leiknum í dag. Magdalena Reimus kom þeim yfir með góðu skoti á 11. mínútu og á eftir fylgdu mörk frá Juliana Paoletti og Björgeyju Njálu Andreudóttur. Staðan var 3-0 í hálfleik.
Ekki voru nema fimm mínútur liðnar af seinni hálfleiknum þegar Guðmunda Brynja Óladóttir skoraði fjórða mark Selfoss með lúmsku skoti. Í stöðunni 4-0 fjaraði leikurinn smátt og smátt út, enda úrslitin ráðin.
Selfoss hafði mikla yfirburði í 2. deildinni í sumar, liðið vann sextán af sautján leikjum sínum og gerði eitt jafntefli en markatala liðsins var 68-10.

