Bikardraumurinn úti hjá Mílunni

Mílan varð af bikarmeistaratitlinum í handbolta strax í fyrstu umferð en liðið tapaði 21-25 þegar KA kom í heimsókn í Vallaskóla í kvöld.

KA náði forystunni strax í upphafi leiks og leiddi með þremur til fjórum mörkum þegar leið á fyrri hálfleikinn. Staðan var 8-12 í leikhléi.

Þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik höfðu gestirnir fimm marka forskot, 11-16, en þá tóku þeir grænu við sér og náðu að minnka muninn í eitt mark, 19-20, þegar fimm mínútur voru eftir. Mílunni tókst hins vegar ekki að fylgja áhlaupinu eftir á lokamínútunum og KA jók muninn aftur í fjögur mörk.

Páll Bergsson var markahæstur hjá Mílunni með 5 mörk, Sigurður Már Guðmundsson skoraði 4, Andri Hrafn Hallsson 3/1, Gunnar Páll Júlíusson 3, Jóhannes Snær Eiríksson 2 og þeir Hannes Höskuldsson, Atli Kristinsson, Trausti Magnússon og Ómar Vignir Helgason skoruðu allir 1 mark.

Sverrir Andrésson stóð fyrir sínu í marki Mílunnar og varði 13/1 skot.

Fyrri greinEndasprettur Hamars dugði ekki til
Næsta greinHaldið upp á 70 ára afmæli Hersis