Bikardraumurinn fokinn út í veður og vind

Hannes Höskuldsson skoraði ellefu mörk fyrir Selfoss í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss er úr leik í bikarkeppni karla í handbolta eftir sannfærandi tap gegn ÍR á útivelli í kvöld í 16-liða úrslitum keppninnar.

ÍR hefur aðeins unnið tvo leiki í deildinni í vetur en það er ekkert spurt að því í bikarnum. Selfyssingar voru á hælunum í upphafi leiks og ÍR skoraði fyrstu fjögur mörkin. Hægt og bítandi söxuðu Selfyssingar niður forskotið og jöfnuðu 11-11 þegar rúmlega 22 mínútur voru liðnar. Staðan í hálfleik var 14-13.

ÍR gerði nánast út um leikinn á upphafsmínútum seinni hálfleiks, þar sem þeir skoruðu fyrstu fimm mörkin og breyttu stöðunni í 19-13. Munurinn hélst lengst af í fimm mörkum en ÍR bætti í á lokakaflanum og sigraði á endanum 34-28.

Hannes Höskuldsson var markahæstur Selfyssinga með 11 mörk, Ísak Gústafsson skoraði 5, Guðmundur Hólmar Helgason og Guðjón Baldur Ómarsson 3, Einar Sverrisson 3/2, Elvar Elí Hallgrímsson 2 og Tryggvi Sigurberg Traustason 1.

Jón Þórarinn Þorsteinsson varði 8 skot í marki Selfoss og var með 28% markvörslu og Vilius Rasimas varði 3/1 skot og var með 15% markvörslu.

Fyrri greinLandsvirkjun og Landeldi gera grænan raforkusamning
Næsta greinJose skoraði 60 stig – Hamar og Selfoss sigruðu