Bikar á loft á Selfossi

Selfyssingar tóku í kvöld á móti verðlaunum sínum en liðið tryggði sér um síðustu helgi deildarmeistaratitilinn í 3. flokki karla í handbolta þegar þrjár umferðir voru eftir af deildinni.

Selfoss mætti Haukum 1 í kvöld og sigraði 31-30, en síðastliðinn sunnudag sigruðu Selfyssingar Framara 29-28 og þar með varð ljóst að ekkert lið næði þeim að stigum.

Selfyssingar hafa nú 32 stig en Fram er í 2. sæti með 24 stig og tvær umferðir eftir af deildinni.

Þetta er annar titill liðsins á skömmum tíma en liðið varð bikarmeistari í 3. flokki á dögunum. Þriðji titillinn er svo í boði því framundan er úrslitakeppni deildarinnar þar sem keppt verður um Íslandsmeistaratitilinn í flokkum. Deildarkeppninni lýkur þriðjudaginn 15. apríl og hefst úrslitakeppnin í framhaldinu.

Fyrri greinHindberjamöndlusjeik
Næsta greinSkaftárhreppur kaupir hluta Kirkjubæjarklausturs