„Betri aðilinn allan leikinn“

Hólmfríður Magnúsdóttir skoraði mark Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann sannfærandi sigur á Stjörnunni í 10. umferð Pepsi Max deildar kvenna í knattspyrnu á Selfossvelli í kvöld. Lokatölur urðu 3-0.

„Mér fannst við vera betri aðilinn allan leikinn. Það er dálítið langt síðan við höfum haft svona mikið sjálfstraust og þegar það kemur og þegar við erum að spila svona bolta, fullt af færum, þá er gaman að horfa á þetta. Nú erum við búnar að spila fjóra og hálfan leik án þess að fá mark á okkur og við erum ótrúlega ánægð með það,“ sagði Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Leikurinn var jafn og nokkuð tíðindalítill í fyrri hálfleik en síðustu fimmtán mínúturnar fyrir leikhlé hertu Selfyssingar tökin heldur betur og gerðu harða hríð að marki Stjörnunnar án þess að ná að skora.

Staðan var 0-0 í leikhléi en strax á 3. mínútu síðari hálfleiks kom Hólmfríður Magnúsdóttir Selfyssingum yfir eftir frábæra sókn og fyrirgjöf frá Barbáru Sól Gísladóttur.

Eftir þetta var leikurinn í eigu Selfyssinga og Stjörnukonur ógnuðu lítið. Þær fengu þó tvö frábær færi í sömu sókninni á 64. mínútu en Kelsey Wys varði frábærlega í tvígang. Fjórum mínútum síðar kom Magdalena Reimus Selfyssingum í 2-0 með góðu skoti og þar með var allur vindur úr gestunum og eftirleikurinn auðveldur fyrir Selfoss.

Hólmfríður bætti við sínu öðru marki á 82. mínútu með góðum skalla eftir hornspyrnu Önnu Maríu Friðgeirsdóttur og þar við sat. Þrjú núll sigur og Selfossliðið áfram í 4. sæti, nú með 16 stig.

Fyrri greinÆrslabelgurinn á Hvolsvelli slær í gegn
Næsta greinMalmö eða Moskva hjá Selfyssingum