Kiðjabergsvöllur í Grímsnesi hlaut á dögunum viðurkenninguna besti golfvöllur Íslands 2025 hjá World Golf Awards en þetta er í 12. skipti sem verðlaunin eru veitt. Þetta er annað árið í röð sem völlurinn hlýtur viðurkenninguna.
„Við erum ótrúlega þakklát fyrir þennan heiður. Þetta er gífurleg viðurkenning fyrir allt það ómetanlega starf sem hefur verið unnið á Kiðjabergi í fjölda ára. Sjálfboðaliðar, starfsfólk og stuðningsfólk klúbbsins hafa allir lagt sitt af mörkum. Án þeirra væri þetta ekki mögulegt. Þessi viðurkenning hvetur okkur áfram til að halda áfram á sömu braut og gera völlinn enn betri,“ segir Guðmundur Ásgeirsson, formaður Golfklúbbs Kiðjabergs, í frétt á kylfingur.is.
Verðlaunahátíðir World Travel Awards™ eru stórviðburðir á alþjóðavísu. Alþjóðleg atkvæðagreiðsla hófst í ársbyrjun og lauk í byrjun október en þar kjósa meðal annars fagfólk innan golf- og ferðaiðnaðarins, umboðsmenn og fjölmiðlafólk – sem og almenningur.

