Besti árangur sunnlenskra skóla í Skólahreysti

Hvolsskóli náði mjög góðum árangri í úrslitakeppni Skólahreysti sem haldin var í Laugardagshöll sl. fimmtudagskvöld.

Tólf skólar tóku þátt og endaði Hvolsskóli í fjórða sæti, sem er besti árangur sem sunnlenskur skóli hefur náð í keppninni. Fyrir hönd Hvolsskóla kepptu Ragnar Þorri Vignisson, Eygló Arna Guðnadóttir, Snædís Sól Böðvarsdóttir og Vignir Þór Sigurjónsson.

Ragnar Þorri bætti sig um þrjár upphífingar frá undankeppninni og endaði í 5.-6. sæti. Hann bætti sig svo um tíu dýfur og sem skilaði honum níunda sæti. Flott bæting hjá Ragnari sem er nemandi í 9. bekk.

Eygló Arna stórbætti árangur sinn í armbeygjum frá undankeppninni úr 40 í 57. Það dugði henni í þriðja sæti, hársbreidd frá toppsætinu, sem er frábær árangur. Í hreystigreipinni hékk Eygló í 2 mínútur og 26 sekúndur og endaði níunda sæti. Eygló stóð svo sannarlega fyrir sínu.

Í hraðabrautinni fóru Snædís Sól og Vignir Þór á tímanum 2:23,16 sem skilaði þeim í sjötta sæti, var tíminn svipaður og tíminn sem þau áttu frá undankeppninni. Þess má geta að Vignir meiddist á baki þegar hann var hálfnaður í brautinni en með mikilli hörku tókst honum að klára brautina vel. Með þessum góða tíma tryggðu Snædís og Vignir skólanum fjórða sætið í Skólahreysti 2012.

Félagsmiðstöðin Tvisturinn á Hvolsvelli stóð fyrir hópferð á undan- og úrslitakeppnina. Það var gífurleg hvatning fyrir keppendur að stuðningsmenn fjölmenntu á keppnina og fóru hreinlega hamförum í stúkunni.

Þess má geta að þetta er í fjórða skiptið á seinustu fimm árum sem skólinn kemst í úrslitakeppni Skólahreysti sem fulltrúi Suðurlands. Eiga íþróttakennarar skólans, þeir Helgi Jens, Lárus Viðar og Ólafur Elí, mikið hrós skilið fyrir góðan undirbúning og árangur nemenda Hvolsskóla í Skólahreysti.

skolahreysti_hvolsskoli2012_631727125.jpg

Fyrri greinKristín Bára nýr formaður Umf. Selfoss
Næsta greinSverð og skoðunarmiðar fundust við húsleit