„Besta lið sem Selfoss hefur átt“

Patrekur og Jón Birgir Guðmundsson sjúkraþjálfari voru glaðir í leikslok. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

„Mér þykir vænt um þessa stráka, félagið og bæjarfélagið, akademíuna sem ég er að þjálfa í… ég gaf hjarta mitt í þetta, þetta var mikil vinna og ég er hrikalega stoltur af því að liðið hafi spilað sinn besta leik undir minni stjórn akkúrat í kvöld. Vá, þessi leikur… það er stórkostlegt að brjóta þennan múr,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir að liðið varð Íslandsmeistari karla í handbolta í fyrsta sinn í gærkvöldi.

„Nú er þetta lið búið að sýna að þetta er besta lið sem Selfoss hefur átt, með fullri virðingu fyrir gullaldarliði Selfoss. Orkan og stuðningurinn og andlegi styrkurinn hjá liðinu í dag, þetta var bara magnað.“

Árangur Selfoss í úrslitakeppninni var frábær, liðið vann átta leiki og tapaði aðeins einum. Patrekur gerði reyndar betur þegar hann gerði Hauka að meisturum 2015 en liðið vann þá átta leiki í röð.

„Stórkostlegt afrek hjá okkur“
„Ef ég á að vera neikvæður þá var þetta 8-1 hjá okkur í úrslitakeppninni og ég hefði haft gaman af því að jafna metið sem ég átti þátt í með Haukunum á sínum tíma, með Janusi og Tjörva og þessum strákum. Haukar eru sérstakt félag og ég ber mikla virðingu fyrir þeim. Ég vann þrjá stóra titla með Haukum á sínum tíma, 2013 til 2015. Þeir eru búnir að vera frábærir á þessari öld og það sýnir bara hvað þetta er stórkostlegt afrek hjá okkur í dag. Það eru yndislegir strákar í Selfossliðinu en það eru líka strákar í Haukum sem mér þykir vænt um,“ segir Patrekur sem kveður nú Selfyssinga og tekur við liði Skjern í Danmörku í sumar.

„Selfoss er komið almennilega á kortið“
„Ég vona að fólk sé ánægt með mig og vonandi fæ ég að koma hingað einhvern tímann aftur, kannski ekki sem þjálfari meistaraflokks karla heldur inn í akademíuna eða eitthvað. Maður veit aldrei. Ég tengdist félaginu og bænum mjög vel og leið vel hérna frá fyrsta degi. Líka eftir þessa fáu tapleiki, þá leið mér vel hérna með fólkinu. Þetta minnir mig svolítið á KA, þegar ég var þar. Þetta er bara sama hjartað og sömu tilfinningarnar í þessu,“ segir Patrekur og bætir við að hann hafi engar áhyggjur af Selfossliðinu þó að breytingar séu framundan.

„Ég passaði vel inn í þetta og var hárrétti maðurinn fyrir þetta lið en það má ekki gleyma því að Stefán Árnason gerði líka fína hluti tvö ár á undan og á þátt í því, líka strákar eins og Teitur Einars, ég hugsa hlýtt til hans og hann tók þessi skref með okkur. Það eru margir sem koma að þessu og ég er hrikalega stoltur. Einar Sverris er ekkert með núna í lok móts, Teitur fór eftir tímabilið í fyrra – þess vegna hef ég engar áhyggjur af framhaldinu þó að Elvar og ég séum að fara. Þetta heldur áfram, Selfoss er komið almennilega á kortið og í Evrópu líka, þannig að ég er stoltur að vera fyrsti þjálfari Íslandsmeistara Selfoss – og mér finnst ógeðslega gaman að segja það.“

Fyrri greinÉg er Selfyssingur!
Næsta grein„Svolítið persónulegir tónleikar“