BerserkirBJJ unnu tvo Íslandsmeistaratitla

Anton Gunnlaugur Óskarsson glímir við Atla Rúnar úr Mjölni. Ljósmynd/Aðsend

Tíu keppendur frá BerserkjumBJJ á Selfossi tóku þátt í Íslandsmótinu í brasilísku jiu-jitsu, sem haldið var í Reykjavík og Reykjanesbæ um helgina.

BerserkirBJJ náðu í tvo Íslandsmeistaratitla og tvenn bronsverðlaun, sem þykir góður árangur þar sem þetta var í fyrsta sinn sem félagið sendir keppendur til leiks á Íslandsmót. BerserkirBJJ var stofnað í maí síðastliðnum.

Að sögn Egils Blöndal, þjálfara, hefur hópurinn sýnt miklar framfarir en flestir voru að stíga sín fyrstu skref í keppni í BJJ. Boðið var upp á margar skemmtilegar glímur á mótinu.

Egill Blöndal varð Íslandsmeistari í +100,5 kg svört belti og Fannar Þór Júlíusson varð Íslandsmeistari í -70 kg flokki 14-15 ára og í 3. sæti í opna flokknum.

Gísli Þórisson og Daníel Örn Þorbjörnsson komust báðir á verðlaunapall og unnu bronsverðlaun. Gísli í -76 kg hvít belti og Daníel í -100,5 kg hvít belti.

Anton Gunnlaugur Óskarsson, Geirmundur Sverrisson, Karol Stepniewsk og Magnús Þór Vignisson sýndu allir fín tilþrif og urðu í 4. sæti í sínum flokkum.

Fleiri Sunnlendingar náðu góðum árangri á mótinu því Selfyssingurinn Brynjólfur Ingvarsson, Mjölni, sigraði í -76 kg svört belti og Flóamaðurinn Símon Martinsson, VBC, náði silfri í -70 kg hvít belti.

Brasilískt jiu-jitsu nýtur vaxandi vinsælda á Íslandi en á mótum helgarinnar tóku 94 keppendur þátt í barna- og unglingaflokki og 100 í fullorðinsflokki.

Diego Valencia, Egill Blöndal og Brynjar Ellertsson. Ljósmynd/Aðsend
Magnús Alexander, Fannar Þór og Ægir Chang. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinGuðmundur seldur til Fylkis
Næsta greinÁrborg seldi byggingarrétt á þremur iðnaðarlóðum