Berserkir BJJ frá Selfossi mættu sterkir til leiks á Íslandsmótinu í brasilísku jiu jitsu í galla, sem fram fór um síðustu helgi á Þelamörk í Hörgársveit. Berserkir komu heim með fjögur gullverðlaun, eitt silfur og eitt brons.
Þröstur Valsson átti frábæran dag og tryggði sér sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil eftir örugga sigra í báðum glímum sínum í sínum flokki. Hann tók einnig þátt í opna flokknum þar sem hann sigraði eina glímu og tapaði annarri.
Sigríður Jóna Rafnsdóttir keppti á sínu fyrsta móti og vann strax fyrstu glímuna, gegn reyndari andstæðingi og tók gullið í sínum flokki. Sigríður Jóna sýndi flott tilþrif og lofar framtíðin góðu.
Hekla Dögg Ásmundsdóttir sigraði í sínum flokki og hún mætti svo Sigríði í bronsglímunni í opna flokknum og tryggði sér bronsið þar. Arna Diljá St. Guðmundsdóttir varð Íslandsmeistari í sínum flokki og náði silfri í opna flokknum. Hún lagði Heklu Dögg í undanúrslitum en mætti síðan Önnu Soffíu Víkingsdóttur, VBC, í úrslitum og þar hafði Anna Soffía betur.
Þjálfari hópsins var Egill Blöndal og Arna Diljá sá um framkvæmd mótsins ásamt fleirum og tókst það mjög vel til.


