Bergrós sigraði á jólamóti lyftingasambandsins

Bergrós Björnsdóttir efst á palli á jólamótinu. Ljósmynd/Lyftingasamband Íslands

Selfyssingurinn Bergrós Björnsdóttir sigraði í kvennaflokki á jólamóti Lyftingasambands Íslands sem fram fór í Sporthúsinu í Kópavogi rétt fyrir jól.

Bergrós snaraði 80 kg og jafnhattaði 100 kg og hlaut fyrir það 224,9 Sinclairstig sem skilaði henni öruggum sigri. Hún lyfti samtals 180 kg og náði með því A-lágmarki á heimsmeistaramót U17 ára í ólympískum lyftingum sem fram fer í Perú í maí næstkomandi. Bergrós keppti á sama móti árið 2022 í Mexikó en þá var hún aðeins 15 ára gömul.

Hvergerðingurinn Anna Guðrún Halldórsdóttir náði einnig frábærum árangri á jólamótinu og sigraði í 87 kg flokki með 153,8 Sinclair stig. Anna Guðrún snaraði 57 kg, jafnhattaði 80 kg og lyfti samtals 137 kg en með nánast hverri lyftu bætti hún Íslandsmet í mastersflokkum 35 ára og eldri í sínum þyngdarflokki.

Fyrri greinBílvelta í Þrengslunum
Næsta greinFór á þjálfaranámskeið í Sviss með Ólympíustyrk