Bergrós krýnd drottningin á Mallorca

Bjarni og Bergrós sigruðu á The Crown á Mallorca. Ljósmynd: The Crown/Vic McLeod

Selfyssingurinn Bergrós Björnsdóttir fór með sigur af hólmi í CrossFit-keppninni The Crown sem lauk á Mallorca á Spáni í gær. Mótið er boðsmót þar sem tólf firnasterkir unglingar frá ýmsum löndum kepptu í níu keppnisgreinum.

Þremur Íslendingum var boðið til leiks og náðu þeir frábærum árangri en hjá piltunum var það Íslandsmeistarinn Bjarni Leifs sem sigraði nokkuð örugglega eftir hörkukeppni við Spánverjann Martí Pla og Rökkvi Guðnason varð í 4. sæti.

Bergrós og Bjarni eru ríkjandi Íslandsmeistarar í CrossFit og í mótslok voru þau krýnd drottning og kóngur eyjunnar fögru í suðri. Í tilkynningu frá mótshöldurunum segir að tvöfaldur sigur Íslands sýni greinilega að á landi elds og ísa sé að koma upp ný kynslóð af ótrúlegu íþróttafólki.

Bergrós var framan af í hörkukeppni við hina bresku Hannah Wendt en þegar mest á reyndi sýndi Bergrós mikla þrautsegju og sigraði í þremur af síðustu fjórum greinum keppninnar. Þegar upp var staðið hafði hún átta stiga forskot á Wendt en keppnin var mjög jöfn í næstu sætum þar fyrir neðan.

@theprogrmcrown
Fyrri greinFögrusteinar buðu lægst í Borgarrima
Næsta greinSamið um viðhald gamalla sæluhúsa