Bergrós komin með keppnisrétt á heimsleikunum

Bergrós Björnsdóttir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingurinn Bergrós Björnsdóttir hefur öðlast keppnisrétt á heimsleikunum í Crossfit sem haldnir verða í Wisconsin í Bandaríkjunum þann 3.-7. ágúst næstkomandi.

Bergrós, sem er 15 ára gömul, mun keppa í flokki 14-15 ára stúlkna en eftir þrjár undankeppnir í vetur komust tíu efstu unglingarnir í heiminum áfram úr undankeppninni. Þess má geta að 1.400 stúlkur á aldrinum 14-15 ára, út um allan heim, hófu keppni í vetur til þess að komast inn á heimsleikana.

„Get ekki beðið“
„Þetta er risadæmi fyrir mig. Ég er búin að stefna á þetta síðustu þrjú ár og leggja inn sjúklega mikla vinnu. Það munaði mjög litlu að ég kæmist inn á mótið í fyrra, þannig að ég lagði allt á mig í ár til þess að komast inn. Það gekk vel og ég varð í 3. sæti í síðustu undankeppninni og það er gott fyrir mig að vita að ég á heima þarna á toppnum,“ segir Bergrós í samtali við sunnlenska.is.

Ísland hefur alltaf átt sterka keppendur í crossfit og íslensku dæturnar hafa vakið mikla athygli fyrir sinn árangur. Bergrós er stolt af því að vera næsta dóttir og hún setur markið hátt.

„Ég get alveg sagt það núna að ég er með stór markmið fyrir þessa keppni, eftir allt sem ég er búin að leggja á mig. Það voru vonbrigði að komast ekki inn í fyrra þannig að núna get ég ekki beðið eftir að þetta byrji svo ég geti sýnt hvað ég get,“ segir Bergrós, sem fer til Bandaríkjanna snemma í júlí og verður í æfingabúðum þar fram að leikunum.

Björgvin Karl á sínum stað
Ásamt Bergrósu komst Rökkvi Hrafn Guðnason áfram á heimsleikana í sitt þriðja sinn en hann lenti einnig í 3. sæti í 16-17 ára flokki. Rökkvi og Bergrós hafa lagt gríðarlega mikið á sig en þau æfa bæði í Crossfit Reykjavík með Eggert Ólafsson sem þjálfara.

Bergrós verður ekki eini Sunnlendingurinn á heimsleikunum því Björgvin Karl Guðmundsson úr Crossfit Hengli er einnig öruggur inn á leikana í ár, níunda árið í röð.

Bergrós í síðustu undankeppninni í byrjun júní. Ljósmynd/Berglind Hafsteinsdóttir

Keppir í Mexíkó á miðvikudaginn
Þar með er ekki öll sagan sögð því Bergrós lagði af stað um helgina til León í Mexíkó, þar sem hún mun keppa á heimsmeistaramótinu í ólympískum lyftingum í flokki U17 ára næstkomandi miðvikudag. Bergrós náði lágmarki inn á heimsmeistaramótið á Norðurlandamótinu sem haldið var í Noregi í nóvember síðastliðnum, en þá var hún aðeins 14 ára gömul. Ásamt Bergrósu keppir Úlfhildur Arna Unnarsdóttir einnig fyrir Íslands hönd í flokki U17 á mótinu í Mexíkó.

„Ég er ekkert að æfa ólympískar lyftingar yfir höfuð en lyftingar eru auðvitað hluti af crossfit. Ég er að æfa á fullu fyrir heimsleikana núna og þetta mót er ekkert að koma í veg fyrir það og verður bara góð reynsla. Ég hef ekki sett mér nein markmið um árangur. Það kemur bara í ljós hvað ég geri,“ segir Bergrós.

Búið að stofna styrktarreikning
Það segir sig sjálft að keppnir sem þessar, út um allan heim kosta sitt og því hefur verið stofnaður styrktarreikningur, ef einstaklingar og fyrirtæki geta og vilja styðja við bakið á þessari afreksstúlku. Reikningsnúmerið er 0511-14-013564 og kennitalan 060207-2160.

Ljósmynd/Berglind Hafsteinsdóttir
Fyrri greinOpið hús á hjá RARIK á Hvolsvelli
Næsta greinKvennakór Hornafjarðar syngur í Guðríðarkirkju í kvöld