Bergrós komin inn á Heimsleikana annað árið í röð

Bergrós Björnsdóttir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hin 16 ára gamla Bergrós Björnsdóttir frá Selfossi hefur tryggt sér keppnisrétt á Heimsleikunum í CrossFit annað árið í röð, þar sem hún mun keppa í 16-17 ára aldursflokki.

Til þess að öðlast keppnisréttinn þurfti Bergrós að komast í gegnum þrjár undankeppnir og í þeirri fyrstu voru hvorki fleiri né færri en 2.000 stúlkur um allan heim skráðar til leiks. Af þeim komust 200 keppendur í fjórðungsúrslit og að þeim loknum komust efstu 30 stúlkurnar inn í síðustu undankeppnina, þar sem tíu efstu tryggðu sig inn á Heimsleikana.

Sem fyrr segir er þetta annað árið í röð sem Bergrós kemst inn á Heimsleikana. Í fyrra keppti hún í 14-15 ára flokki og varð í 8. sæti en hún lauk keppni með því að sigra eftirminnilega í síðustu greininni. Nú keppir hún í 16-17 ára flokknum en þess má geta að hún er eini íslenski unglingurinn sem komst alla leið í ár og verður hún yngst keppenda í sínum flokki á Heimsleikunum.

Styrktarreikningur stofnaður til að mæta gríðarlegum kostnaði
Heimsleikarnir í CrossFit verða haldnir í Madison í Wisconsin í byrjun ágúst og er undirbúningurinn nú þegar hafinn af fullum krafti hjá Bergrós. Þar sem CrossFit tilheyrir ekki neinu íþrótta- eða ungmennafélagi þá lendir kostnaður og uppihald fyrir Bergrós og þjálfara hennar alfarið á Bergrós og foreldrum hennar, en þau fara út nokkrum vikum fyrir Heimsleikanana í æfingabúðir til Bandaríkjanna.

Það er gríðarlega mikill kostnaður sem fylgir því að vera afreksunglingur á heimsmælikvarða í íþróttum og hefur því verið stofnaður styrktarreikningur fyrir Bergrós. Ef einstaklingar eða fyrirtæki hafa tök á því að styðja við bakið á þessari öflugu stelpu sem lætur ekkert stoppa sig, þá er reikningsnúmerið 0511-14-013564 og kennitalan 060207-2160.

Bergrós Björnsdóttir á Heimsleikunum 2022. Ljósmynd/games.crossfit.com

Lokastaða undankeppninnar fyrir heimsleikana:

Fyrri greinRisa Euro-partý á Selfossi: Sviðið breytist í Gleðibankann
Næsta greinSveitarfélagið Árborg í 25 ár – í tölum