Bergrós framlengir við Selfoss

Bergrós handsalar samninginn við Guðmund Karl Sigurdórsson í meistaraflokksráði kvenna. sunnlenska.is/Einar Karl Þórhallsson

Varnarmaðurinn Bergrós Ásgeirsdóttir hefur framlengt samning sinn við knattspyrnudeild Selfoss út tímabilið 2020.

Bergrós hefur verið lykilmaður í liði Selfoss á undanförnum árum en hún er 22 ára gömul og hefur spilað 92 meistaraflokksleiki fyrir félagið frá árinu 2013.

Bergrós stundar nám við Arkansas háskóla í Little Rock í Bandaríkjunum og spilar með liði skólans í háskólaboltanum en hefur síðustu sumur komið til Íslands til þess að leika knattspyrnu með uppeldisfélagi sínu.

„Við erum gríðarlega ánægð með að Bergrós framlengi sinn samning við félagið. Hún hefur fest sig í sessi sem einn albesti varnarbakvörður Pepsi Max deildarinnar og er frábær liðsmaður bæði innan og utan vallar,“ segir Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss.

Fyrri greinFlækti fót í girðingu og slasaðist alvarlega
Næsta greinMetfjöldi ökumanna kærður fyrir hraðakstur