Bergrós best í heiminum

Bergrós á Heimsleikunum í CrossFit í fyrra. Ljósmynd/games.crossfit.com

Selfyssingurinn Bergrós Björnsdóttir náði frábærum árangri í fyrstu undankeppninni af þremur fyrir heimsleikana í CrossFit sem fara fram í ágúst. Eftir hörkukeppni við þær bestu í heimi situr Bergrós í 1. sæti í flokki 16-17 ára af rúmlega 1.600 keppendum ásamt jafnöldru sinni frá Bandaríkjunum, Kendall Gilmore.

Greinarnar í fyrstu undankeppninni hentuðu alls ekki styrkleikum Bergrósar en árangurinn sýnir að hún er heldur betur búin að vinna í sínum veikleikum undanfarna mánuði. Hún stefnir nú ótrauð áfram í fjórðungsúrslitin sem hefjast þann 17. apríl og fara fram á netinu. Eftir þá keppni kemur í ljós hvaða keppendur komast áfram í undanúrslit Heimsleikanna. Það er Evrópumótið í CrossFit í fullorðinsflokki, sem fram fer í Frakklandi 17.-19. maí.

Þess má geta að í ár komast 30 keppendur í flokki 16-17 ára inn á Heimsleikana en hingað til hafa þeir aðeins verið tíu. Haldi hún sínu striki ætti Bergrós að fljúga inn á mótið í ár. Bergrós varð í 3. sæti á Heimsleikunum í 16-17 ára flokknum og er nú komin yfir á eldra árið, nýorðin 17 ára.

Keppir á Spáni um helgina
Undankeppni Heimsleikanna er ekki eina verkefni Bergrósar þessar vikurnar því um næstu helgi keppir hún á The Crown, sterku móti á Mallorca á Spáni. Mótið hefst á skírdag en keppnin er mjög frábrugðin öðrum mótum þar sem aðeins tólf unglingum frá hinum ýmsu löndum er boðið að keppa. Hægt er að fylgjast með keppninni á Instagram. Tveir aðrir Íslendingar keppa á mótinu, þeir Rökkvi Hrafn Guðnason og Bjarni Leifsson.

Heimsmeistaramót í Perú í maí
Í lok maí mun Bergrós síðan keppa á heimsmeistaramótinu í ólympískum lyftingum sem fram fer í Perú. Það verður spennandi að sjá hvað Bergrós gerir á þessu móti en hún hefur ekki æft eða keppt í ólympískum lyftingum að undanförnum þar sem CrossFit á hug hennar allan. Síðasta stórmót hennar í lyftingunum var heimsmeistaramótið 2022 sem fram fór í Mexíkó en þar endaði hún í 8. sæti U-17 ára. Mótið í ár verður hennar síðasta stórmót í þessum aldursflokki.

Fjölskyldan fjármagnar ævintýrið sjálf
Þar sem CrossFit er ekki undir hatti íþróttafélaganna lendir allur kostnaður Bergrósar við ferðalögin og keppnishaldið á henni sjálfri og fjölskyldu hennar. Þeir sem vilja styðja Bergrós í baráttunni geta til dæmis keypt lógó á æfingafatnað hennar og er hægt að fá nánari upplýsingar hjá móður hennar, Berglindi, á netfanginu bolsturlist@gmail.com. Einnig er hægt að styðja þessa mögnuðu íþróttakonu með frjálsum framlögum á reikning 0511-14-013564, kt. 060207-2160.

Fyrri greinInga Jóna ráðin skrifstofustjóri
Næsta greinPétur G. Markan ráðinn bæjarstjóri í Hveragerði