Bergrós að gera frábæra hluti í hitanum í Madison

@bergrosbjornsdottir

Síðasti keppnisdagur unglinga á heimsleikunum í CrossFit er að hefjast og eftir tvo keppnisdaga er Selfyssingurinn Bergrós Björnsdóttir í 7. sæti í sínum aldursflokki.

Það er búið að vera heitt í Madison í Wisconsin-fylki í Bandaríkjunum og hitinn hefur tekið sinn toll af keppendum. Bergrós byrjaði mótið af krafti á þriðjudag, varð í 2. sæti í fyrsta wodinu þar sem hún snaraði 83 kg og jafnhattaði 107 kg. Strax á eftir var komið að næsta wodi sem var löng og mikil þolraun í hitanum. Bergrós hneig að lokum niður í alvarlegu hitaslagi eftir mikla þrjósku, var borin af velli og varð tíunda í greininni.

Hún fékk nokkra klukkutíma til þess að jafna sig fyrir þriðju keppnisgrein þriðjudagsins og náði hún að drekka og borða vel og hvíla sig og náði sér ótrúlega fljótt á strik. Þriðja wodinu lauk hún í 7. sæti og var þá sjöunda í heildina.

@bergrosbjornsdottir

Ræs klukkan 6:40
Vekjaraklukkan hringdi snemma á öðrum keppnisdegi þar sem tekin voru þrjú wod, auk þess að koma fram á opnunarhátíð heimsleikanna. Bergrós kom ótrúlega sterk inn á öðrum degi, kláraði fyrsta wod dagsins með glæsibrag og kom fjórða í mark, örfáum sekúndum á eftir þeirri þriðju. Fimmta wod keppninnar var innandyra og fögnuðu keppendur því vel, Bergrós fór vel af stað í handstöðugöngu og endaði wodið í 7. sæti.

Síðasta wod gærdagsins var 5 kílómetra hlaup þar sem að allir aldursflokkarnir hlupu saman. Bergrós fèkk lánað kælivesti og kæliderhúfu, sem hún gat notað til þess að kæla líkamann rétt fyrir hlaupið, ásamt því sem hún náði að drekka vel. Bergrós kom sjöunda í mark í sínum flokki og var hæstánægð með sína frammistöðu þar.

@bergrosbjornsdottir

Hörkukeppni um verðlaunapallinn
Fyrir síðasta keppnisdaginn í dag er Bergrós í 7. sæti í sínum aldursflokki en það munar hársbreidd á stelpunum sem eru í 3.-8. sæti og gæti því hver sem er endað á verðlaunapallinum. Það verður mjög spennandi að sjá hvernig síðustu tvö wodin fara í dag og ljóst að það verður hörkubarátta um sæti á pallinum.

Hægt verður að fylgjast með keppni dagsins í spilaranum hér að neðan og einnig má fylgjast með Bergrós á Instagram. Keppni dagsins ætti að hefjast um klukkan 16 að íslenskum tíma og seinna wodið er um kl. 21:45.

Fyrri greinÞurrasti júlímánuður frá upphafi mælinga
Næsta greinAukið eftirlit með umferðinni um helgina