Benedikt bestur í seinni umferðinni

Benedikt Guðmundsson, þjálfari Þórs í Þorlákshöfn, var í dag útnefndur besti þjálfari seinni umferðar Iceland Express-deildar karla í körfubolta.

Þórsarar unnu átta leiki af ellefu í seinni umferðinni og voru með 73% sigurhlutfall. Þórsarar lögðu meðal annars deildarmeistara Grindavíkur í annað skiptið eftir áramót.

Einnig var tilkynnt úrvalslið deildarinnar í seinni umferðinni og er það skipað Mýrdælingnum Justin Shouse, Stjörnunni, Magnúsi Þór Gunnarssyni, Keflavík, Jóni Ólafi Jónssyni, Snæfelli, Finni Atla Magnússyni, KR og J´Nathan Bullock, Grindavík, sem einnig var útnefndur besti leikmaðurinn.

Í 8-liða úrslitum deildarinnar mæta Þórsarar Snæfelli og er fyrsta viðureign liðanna á föstudagskvöld í Þorlákshöfn. Leikur tvö er í Stykkishólmi á mánudagskvöld og komi til oddaleiks verður hann í Þorlákshöfn að kvöldi skírdags.

Þór og Snæfell unnu sitthvorn leikinn innbyrðis í deildinni í vetur.

Fyrri greinAllir titlarnir á Selfoss
Næsta greinStarfsmenn ÍG gáfu dósasjóðinn