Benedikt áfram – Guðmundur farinn

Benedikt Guðmundsson, þjálfari karlaliðs Þórs í körfubolta, er búinn að framlengja samning sinn við Þór og verður þar næstu tvö árin.

Þetta kom fram á visir.is í morgun.

„Árangurinn í vetur var betri en í fyrra þar til við lentum í meiðslunum. Við erum bara lítið lið sem reynir að vinna úr sínu. Við erum ekkert með landsliðskarla á lager til að taka við ef einhver meiðist,“ segir Benedikt og minnir á að lítið megi út af bregða hjá liðunum í körfunni.

Næstu tvö árin verða karlaliðin í efstu deild að hafa fjóra íslenska leikmenn inni á vellinum hverju sinni. Landslagið er því gjörbreytt.

„Nýja reglan býður upp á að slegist verði um íslenska leikmenn. Allir eru að ræða við alla,“ segir Benedikt. Hans leikmenn eru þar ekki undanskildir.

„Allir leikmenn okkar, sem eru á annað borð komnir upp úr grunnskóla, hafa fengið símtal einhvers staðar frá,“ segir Benedikt. Heyrst hefur að hann beri víurnar í Tómas Tómasson, stigahæsta leikmann Fjölnis, sem féll úr deildinni í vetur.

„Það skýrist vonandi á allra næstu dögum en við erum ekkert þeir einu í sambandi við hann,“ segir Benedikt. Greinilegt er að körfuboltaþjálfarar landsins eru mikið í símanum þessa dagana.

„Lið gætu lent undir á þessum kjötmarkaði og farið illa. Þetta er barátta og við þurfum að taka þátt í henni ef við ætlum að vera með samkeppnishæft lið.“

Í dag tilkynntu Keflvíkingar að bakvörðurinn Guðmundur Jónsson, einn besti leikmaður Þórs á síðustu tveimur tímabilum, hafi gengið til liðs við Suðurnesjaliðið. Ljóst er að Benedikt á ærið verk fyrir höndum að fylla skarðið sem Guðmundur skilur eftir sig.

Fyrri greinGóðar rekstrarniðurstöður í Ölfusinu
Næsta greinTómas Ellert: List í Árborg